þriðjudagur, mars 31, 2009

Sölumaður dauðans

Við Björg systir förum stundum og fáum okkur bita í hádeginu og reynum að sjálfsögðu að velja okkur eitthvað hollt og gott. Um daginn lá leið okkar á matsölustaðinn Maður lifandi og auk þess að fá okkur hádegisverð ákváðum við að kíkja í verslunina og athuga hvort það væri ekki hægt að fjárfesta í eins og einu heilbrigði. Sölumaður dauðans sá okkur litlu lömbin ráfa um í leit að einhverju sem gat gert lífið betra og greip okkur glóðvolgar. Við söluræðu sína notaði hún merkilega áróðurstækni og reyndi hvað hún gat að nota orðið drepa, dauði, eitur og annað í þeim flokki til að hræða úr okkur líftóruna. Hún þuldi upp allt sem ætti eftir að drepa okkur og samkvæmt henni þá áttum við örfáar klukkustundir eftir.
Ég er ekki í nokkrum vafa að konan hafi eitthvað fyrir sér í þessu öllu og fannst ræða hennar um skaðleika sætuefnisins aspartam sem konur dæla í sig í diet drykkjum ansi athyglisverð. Hún fór reyndar ansi víða í drápsræðum sínum og kom við í snyrtivörum og hárlitum og glennti framan í okkur agalega sniðugan farða sem væri sá besti á markaðnum. Kannski var það líka rétt en konugreyið hafði augljóslega ekki litið í spegil því með þessa grímu get ég ekki ímyndað mér að hún selji mikið af heilsu-augnskuggum og kinnalitum. Konan náði þó að selja mér heilsusamlegt roll-on úr snyrtivörulínunni. Hún sagði þetta eina svitalyktaeyðinn á markaðnum sem konur ættu að nota - engin eiturefni. Sagði heilsuspekúlanta tengja notkun roll-ons og holhandarraksturs kvenna við brjóstakrabba og hvað vill maður ekki reyna til að forðast þann vágest svo ég sló til. Eftir að hafa notað það í smá tíma fór ég að velta því fyrir mér af hverju ég væri allt í einu farin að svitna svona ógurlega. Þvílíka og aðra eins viðbjóðs-svitafýlu hef ég aldrei á ævinni kynnst fyrr en eftir að heilsu-rollonið kom til sögunnar og því var því fleygt, þó fyrr hefði verið.
Ég er enn að jafna mig á sálinni eftir að hafa setið í skólanum heilan dag og farið 5sinnum á klósettið til að reyna að þvo þessa viðbjóðs lykt af sem sat sem fastast. Ég er mikið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að útskýra fyrir vinnuhópnum mínum að svitalyktin sé ekki vegna þess að ég sé sóði heldur út af þessu helv... roll-oni. Nei það kemur kannski ekki sérlega vel út. En ef ég segi ekkert þá verð ég þessi með ógeðisfýluna.....
Ég er eigilega í smá vanda. Allt sölumanni dauðans að þakka.

þriðjudagur, mars 24, 2009

góður endir á afar slökum degi

Okkur var boðið í voða skemmtilegt partý um helgina sem er mikil og góð tilbreyting frá hversdagslegu amstri. Við ákváðum að taka kvöldið með trompi og skemmta okkur þar til gleðinni lyki sem er nú orðið fátítt hér á bæ í seinni tíð. Gleðinni fylgdi ýmis misgáfuð uppátæki eins og að staupa tequila, ræða öll heimsins álitamál með skoðanir á því öllu, söngur með míkrafón í hönd og trúnó svo fátt eitt sé nefnt. Kvöldið var þó hið skemmtilegasta og leigubíllin heim úr Hafnafirðinum alveg þess virði. Það var hins vegar annað hljóðið í hjónunum morguninn eftir. Þynnkan var svo sem ekkert ógurleg því þroskinn hefur kennt manni að fara í vatnið á ákveðnum tímapunki heldur var það þessi þreyta sem hrjáir gamalt fólk þegar það fær ekki fullan svefn sem var að fara með okkur á sunnudeginum. Það var náttúrulega búið að lofa samningamanninum hinu og þessu sem þurfti að standa við eins og sunnudagaskóla kl.11 og svo húsdýragarðinum þar sem kindur voru rúnar kl 13. Já já allt mjög mikilvægir uppeldisliðir fyrir börnin en ekki eins mikilvægt fyrir foreldrana sem höfðu sofið tæpa 4 klukkustundir. En það var eins og svo oft áður við engan annan að sakast en okkur sjálf. Þreyta og pirringur er víst ekki lykillinn að góðu foreldri og í lok dags þegar pabbinn var lagstur upp í rúm með stóra stráknum sínum gat hann ekki annað en beðið hann afsökunar. Svarið var hins vegar það sem toppaði daginn því stráksi sagði "pabbi allt í góðu ég er bara búinn að steingleyma þessu"

mánudagur, mars 16, 2009

pottur og partí

Mín var heldur fljót á sér enda er nú bara mars..... Veturinn minnti hressilega á sig um helgina og við máttum þakka fyrir að komast yfir heiðina. Við tókum smá afslöppum í Selvíkinni og láum í bleyti og átum á okkur gat, eins og maður jú gerir í sumarbústað. Hvað er notalegra en að liggja í potti í snjókomu - jú kannski að liggja í potti í sólskini en við kvörtuðum ekki yfir hvítu hnoðrunum. Við keyrðum líka yfir á geysi þar sem Strokkur sló í gegn hjá bræðrunum.
Annars skilst mér að ég hafi misst af heljarinnar skemmtun á laugardagskvöldið. Það var nefnilega 10 árganga reunion í félagsheimili Seltjarnarness fyrir fólk fætt '70 - '80 og menn svona líka yfir sig ánægðir með helgina. Spjölluðu við gamla félaga, nágranna, þjálfara, kennara, kærasta/-ur og börnin sem þau pössuðu.... Já þetta hefur örugglega verið mikið stuð. Eiginmaðurinn ekki að skilja hvorki svekkelsið að hafa misst af þessu né skemmtunina við það að djamma með einhverjum sem var í 10.bekk þegar maður var í 7 ára bekk. Já þegar dæmið er sett þannig upp þá hljómar þetta nú ekkert sérstaklega vel en hann er náttúrulega úr stórborginni og skilur ekki smáborgarstemmninguna.
Gefum honum séns!

föstudagur, mars 13, 2009

Vorið að koma og grundir að gróa

Vorið er bara að koma, svei mér þá og páskarnir ekki einu sinni búnir. Við skelltum okkur í sund eftir vinnu/skóla í gær og nutum birtunnar alveg til að verða 7 í pottinum, heldur kalt en gæti alveg verið íslenskt vor. Maður er meira að segja farin að heyra einstaka fuglasöng ef maður hlustar mjöööög vel en líklegast var þetta barnið að æfa sig að flauta (þrotlausar æfingar).
Mér skilst að vorið sé hins vegar komið í Svíþjóð og í USA er pennsilvaniuskvísan okkar skokkandi um á stuttermabol. Þegar ég heyri svona vortíðindi frá útlöndum um miðjan mars þá væri ég alveg til í að Íslandið góða væri aðeins sunnar í Atlantshafinu. En það eru vænlegir tímar á næsta leyti, að minnsta kosti í náttúrunni og nú er bara að gleyma sorg og sút og njóta birtu og blóma.
Okkur langar voða mikið að fjárfesta í gömlum tjaldvagni eða einhverju sem gefur manni kost á að ferðast um landið og sofa út í náttúrunni á örlítið hlýlegri máta en í tjaldi. Mér skilst að það sé hins vegar setið um gamla tjaldvagna og það þurfi ekki nema eina auglýsingu í moggan til að koma þeim út.... svo það verður kannski fjárfesting seinni ára.

þriðjudagur, mars 03, 2009

Siðfræðilegir fordómar

Þessa dagana sit ég kúrs sem heitir "siðfræði verkefnastjórnunar" og er því uppfull af Aristóteles og Sókratesi. Það er áhugavert að lesa um heimspeki og siðfræði á tímum sem þessum og velta hlutum fyrir sér í samhengi við atburði líðandi stundar. Eiginmaður kunningjakonu minnar er danskur og þrátt fyrir að foreldrar hans hvetji þau statt og stöðugt að flýja ástandið hér og koma í sveitasælunna á Jótlandi þá ætla þau að staldra við og leyfa tímunum að líða. Daninn segir nefnilega að Íslendingar séu "gullfiskar" og spáir því að ekki líði að löngu þar til fólk fari á flug að nýju. Ég veit ekki hvað skal segja um ummæli sem þessi. Vissulega hefur hann rétt fyrir sér að mörgu leyti. Hann segir að Danir séu allt öðruvísi. Ef ástand sem þetta væri í Danmörku þá tæki það Danina mörg ár ef ekki áratugi að komast yfir það. Þeir myndu minnast þess í hverri ræðu og sýna mikla varkárni í öllum viðskiptum svo hörmungarnir endurtækju sig ekki. Já ...... .
Vissulega er gott að hengja sig ekki á það sem er liðið en jafnframt mikilvægt að minnast þess í þeim tilgangi að læra....... Horfa fram á við en líta endrum og sinnum í baksýnisspegilinn.

Helgarmyndin um Enron hneykslið minnti óneitanlega mikið á "snillingana" okkar og þann sýndarveruleika sem þeir hafa alið af sér. Nokkrir yfirmenn Kaupþings hafa sagt af sér og fréttir herma að ómögulegt sé fyrir þá að vinna undir nýrri stjórn, greyin.... Æi fær enginn annar ónotatilfinningu. Þeir eru að fara að starta einhverju nýju. Er það ekki málið. Koma peningum í umferð alla veganna á hreyfingu... Ætli þeir séu að fylgja siðfræði nytjahyggjunnar að afurðin leiði af sér meiri hamingju en óhamingju með samfélagið í huga? Nú spyr ég bara eins og kennslubókin.

Held ekki. Þetta eru athafnamenn, peningamenn með skýr markmið.... Þeim þykja kjaftafög eins og siðfræði leiðinleg og eyða ekki tíma sínum í það sem skiptir ekki máli........ Þeir eru að vinna að mikilvægum málum...... Styðja við jafnréttisbaráttuna, taka fæðingarorlof en skipta ekki á bleyjum.... vinna 60 stunda vinnuviku því þess er krafist...........

Já fordómar geta farið með mann - eða hvað!

Verkefni daganna

MC donalds var heimsóttur í gær mönnum til mikillar ánægju. Mamman var hins vegar ekkert of glöð og kann engan veginn að meta burgerana. Franskarnar þær einu sem standa fyrir sínu... jú og flurryinn. Anyways keppnin er búin og nú er hætta á að Einar Áskell mæti á svæðið á ný. Það var ákveðið að koma upp nýju systemi og svo er að sjá hvort nýjar svefnvenjur verði ekki orðnar hluti að eðlilegum takti, vonandi. Nú eru það 10 broskallar og þegar þeim er náð þá fær hann að velja sér mynd í bíó. Við erum hvort eð er búin að lofa bíóferð svo lengi að það er ágætt að nýta hana í þetta. Nú er að sjá hvort keppnin sé enn spennandi eða hvort foreldrarnir þurfi að fara að finna uppá nýstárlegri uppeldisaðferðum. Hættan er vissulega sú að þegar verðlaun eru notuð eins og núna að þá þurfi endalaust að vera að verðlauna fyrir eitthvað jafn sjálfsagt og að fara að sofa. Þetta er bara hið flóknasta mál þegar menn eru bara aldrei þreyttir. Þegar verðlaunakerfið er í gangi þá liggur hann og skoðar bækur, raular og hugsar en er ekki galandi á okkur á fimm mínútna fresti og komandi fram biðjandi um hitt og þetta. Hann liggur nú rólegur þangað til hann sofnar. Freistingin að halda þessu áfram er gríðarleg fyrir okkur því nú þurfum við ekki að pirrast og fáum kvöldið út af fyrir okkur sem er afar mikilvægt eftir langan dag. Hver er að verðlauna hvern - það er stóra spurningin.....

laugardagur, febrúar 28, 2009

keyptum okkur góða viku.

Veit ekki hvað uppeldisfræðingar segja við þessu en við hjónin keyptum okkur góða viku á dögunum. Við vorum orðin ansi þreytt á þreytuleysi krónprinsins og endalausum Einars Áskels töktum langt fram eftir kvöldi. Drengurinn fer uppí rúm á milli átta og níu og er yfirleitt ekki dottinn í draumalandið fyrr en klukkan er langt gengin í tíu. Hann kann öll brögðin í bókinni, allt frá "ég þarf að pissa og drekka, tennurnar eru ekki nægilega vel burstaðar, mig langar í brúna bangsann sem ég finn ekki, má ég lesa eina bók í viðbót, má ég hlusta á eina sögu (í viðbót)"....... og alveg til "augun mín vilja ekki lokast". Það sem við hins vegar vitum eftir 4 og hálft ár er að hann er alveg brjálæðislega kappsamur og alltaf tilbúinn í hvaða keppni sem er. Því setti pabbinn upp plan fyrir vikuna og viti menn það er strax farið að svííínvirka. Eftir 7 broskarla þar sem hver og einn stendur fyrir gott kvöld hjá foreldrunum þá fær hann að fara á MC donalds sem er algjört treat fyrir 4 ára guttann. Nú eru liðnir 2 dagar síðan uppeldisaðferðin hófst og það er hreint lygilegt hvað Einar Áskell er orðinn sjálfsagaður.
Þetta er ekki flókið, smá verðlaun og málið er dautt.

þriðjudagur, febrúar 17, 2009

Jahérna

Ég fer nokkrum sinnum í mánuði, stundum viku, allt eftir því hvernig liggur á og fæ mér kaffisopa eftir að hafa farið með karlpeninginn í vinnu og skóla. Ég á mér næstum orðið mitt sæti við grandann á litlu kaffihúsi, Te og kaffi í sama húsi og Saltfélagið. Þar get ég setið í ró og næði því þeir eru fáir sem byrja þar daginn. Það er notalegt að fletta í tímaritum með rjúkandi kaffi og stundum hef ég tekið kennslubækurnar með og breytt um lestrarumhverfi svona til að halda neistanum.
Ég var því fyrir vonbrigðum í morgun þegar ég kom hreinlega að tómum kofanum. Það er búið að loka Saltfélaginu og kaffihúsið var eins og eftir skilnað. Annar helmingurinn var farinn og eftir stóð hálf einmanaleg sál. Afgreiðsludaman var leið þegar hún sagði mér frá atvikum helgarinnar og vissi ekkert um framtíð kaffistaðarins né sína eigin. Hún sagði mér að verslunin hefði riðað til falls en sömu sögu væri að segja um Habitat. Jahérna...... ég fékk mér nú samt kaffi þó ekki nema bara fyrir hana.
Já þetta er víst tíðin á Íslandinu góða og áfram halda fyrirtækin að berjast um þær fáu verðlausu krónur sem eftir eru og eitt er víst að ekki eru þær nógu margar fyrir þau öll.